Yfir 100 breytingar hafa verið gerðar á skattumhverfinu á síðustu tveimur árum. Því fylgir óvissa og óöryggi og margar hafa verið illa ígrundaðar. Engum dylst að skattar hafa hækkað.

Þetta kom fram í máli Alexanders Eðvardssonar, sviðsstjóra skattasviðs KPMG, á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag. Yfirskrift fundarins var „Íslensk fyrirtæki flýja land – Hver er rótin?“

Alexander benti á lönd sem hafa lækkað skatta á atvinnurekstur eftir að kreppan skall á, þar á meðal séu Þýskaland og Danmörk. Þá sagði Alexander að því hafi verið haldið fram að skattlagning á Íslandi sé innan allra ramma og vel samkeppnishæf. En skattur margra Evrópuríkja á hagnað fyrirtækja sé lægra en á Íslandi. Þar á meðal séu Írar sem hafa ekki hækkað skatta þrátt fyrir efnahagserfiðleika og þrýsting frá Evrópusambandinu.

Hann sagði að við breytingarnar hafi kostnaður íslenskra fyrirtækja hækkað og samkeppnishæfi þeirra minnkað.