Úttekt Frjálsrar verslunar á ríkasta fólki landsins síðasta vor tók topplista veffrétta Frjálsrar verslunar með stormi þetta árið og sló fréttum upp úr hinu sívinsæla Tekjublaði rækilega við með því að fylla allan verðlaunapallinn – ef svo má að orði komast – en fréttir upp úr úttektinni vermdu þrjú efstu sæti ársins yfir lestrartölur.

Tekjublaðsfréttir vermdu þó vitanlega næstu tvö sæti þar á eftir. Hér getur að líta fimm mest lesnu fréttir Frjálsrar verslunar á líðandi ári.

1. 50 ríkustu Íslendingarnir

Vinsælasta frétt Frjálsrar verslunar á árinu, svo miklu munar, fjallaði um samantekt tímaritsins á auð 50 ríkustu Íslendinganna, sem samtals áttu um 1.400 milljarða króna.

2. Ríkustu Íslendingarnir: Björgólfur Thor á toppnum

Samkvæmt áðurnefndri úttekt var Björgólfur Thor Björgólfsson ríkasti Íslendingurinn, sem var vinsælt lesefni þótt það hafi kannski ekki verið fréttir sem slíkar fyrir mjög mörgum.

3. Ríkustu Íslendingarnir: Kastali Ólafs í Frakklandi frá 1444

Ólafur Ólafsson fjárfestir og Ingibjörg Kristjánsdóttir eiginkona hans komu að sjálfsögðu einnig fyrir á listanum, en helsta eign hjónanna er ráðandi hlutur í Samskipum.

4. Með 25 milljónir á mánuði

Vinsælasta Tekjublaðsfrétt ársins greindi frá veglegum launatekjum Hjalta Baldurssonar, fyrrverandi forstjóra og stofnanda Bókunar, sem var launahæsti forstjóri landsins í fyrra með 24,8 milljónir króna á mánuði að meðaltali.

5. Launahæsti læknirinn með 6,7 milljónir á mánuði

Heimilislæknirinn Örn Erlendur Ingason var efstur á tekjulista lækna og tannlækna en tekjur hans á síðasta ári námu um 6,7 milljónum króna á mánuði. Tíu launahæstu læknarnir voru allir með yfir fjórar milljónir í mánaðarlaun.