Líkamsræktartæknifyrirtækið Mirror (spegill) hóf sölu á samnefndri vöru í dag, sem er 40 tommu spegill með innbyggðum skjá. Spegillinn kostar 1.495 dollara, um 165 þúsund krónur.

Notendur stunda líkamsrækt fyrir framan spegilinn og fá leiðbeiningar frá þjálfara sem sýndar eru á skjánum, en sjá á sama tíma eigin spegilmynd og geta þannig borið eigin hreyfingar saman við leiðbeiningar þjálfarans.

Bæði er boðið upp á upptökur og leiðbeiningar í rauntíma, auk þess sem hægt er að kaupa einkaþjálfun gegn um tækið, þar sem spegillinn er með innbyggða myndavél.

Spegillinn sýnir einnig ýmsar upplýsingar eins og hjartslátt (hjartsláttarmælir fylgir), fjölda brenndra hitaeininga, og yfirlit í lok æfingar.

Tækinu er stjórnað með snjallforriti fyrir iPhone, en þar geta notendur valið sér æfingar, og slegið inn meiðsl eða sérstök áhersluatriði, sem tækið tekur þá til greina og býr til æfingaáætlun fyrir notandann.

Þá geta notendur slegið inn í forritið hvaða æfingabúnað þeir hafa tiltækan, og fá þá þjálfunarleiðbeiningar í samræmi við það.

Loks eru hátalarar innbyggðir í tækið, sem bæði getur spilað tónlist gegn um Spotify Premium, Bluetooth, eða spilað tónlist frá fyrirtækinu sjálfu.