Elon Musk, forstjóri SpaceX og Tesla, seldi allar sjö fasteignir sínar á rúmlega árstímabili, frá júní 2020 til nóvember 2021, á 128 milljónir Bandaríkjadala, um 17 milljarða króna. Hann keypti húsin á árunum 2012-2019 fyrir 102 milljón Bandaríkjadali, eða um 13,5 milljarða króna. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal.

Musk tilkynnti fyrir um tveimur árum að hann ætlaði að selja nær allar eigur sínar. Það gerði hann á Twitter þann 1. maí árið 2020 þegar hann tísti „I am selling almost all physical possessions. Will own no house.“

Býr í stúdíóíbúð

Á sama tíma og hann hefur selt sjö fasteignir, hefur hann flust í lágstemmda 37 fermetra stúdíóíbúð í Texas, samkvæmt tísti frá honum í fyrra. Íbúðin leigir hann frá sínu eigin fyrirtæki, SpaceX, og er hún í nálægð við höfuðstöðvar fyrirtækisins. Musk áætlaði á þeim tíma að íbúðin væri um 50 þúsund dala virði, jafnvirði 6,5 milljónum króna.

Ardie Tavangarian, fasteignamógull, keypti fjórar af sjö fasteignum sem Musk hefur selt á tímabilinu. Hann greiddi um 62 milljónir Bandaríkjadala fyrir húsin, sem eru á tveimur götum og er tómt land á milli gatnanna. Hann hefur sagst íhuga að sameina húsin fjögur í eitt, en þau áform eru þó háð leyfi frá yfirvöldum.

Musk seldi síðustu fasteignina í nóvember í fyrra. Um er að ræða 1.500 fermetra villu í Hillsborough, Kaliforníu sem var byggð fyrir 100 árum síðan. Öll húsin sem Musk hefur selt að undanförnu eru jafnframt staðsett í Kaliforníu fylki í Bandaríkjunum.