Heimsmarkaðsverð á bönunum mun koma til með að hækka á næstu árum samhliða loftslagsbreytingum.

Pascal Liu, háttsettur hagfræðingur hjá World Banana Forum, segir að loftslagsbreytingar séu gífurleg ógn við framboð á bönunum þar sem þær auki hættur á útbreiðslu sjúkdóma.

Samtökin hittust í Róm í dag til að ræða núverandi áskoranir sem ávöxturinn stendur frammi fyrir en enginn ávöxtur er fluttur út í jafn miklu magni og bananinn.

Veðurfarsbreytingar hafa haft umtalsverð áhrif á framleiðslu undanfarin ár en bananinn er einnig mjög viðkvæmur fyrir hitabreytingum og eru áhyggjur um að ávöxturinn gæti einfaldlega þornað upp fyrir uppskeru.

Sjúkdómurinn sem veldur mestum áhyggjum er sveppasýkingin Fusarium Wilt TR4 sem barst frá Ástralíu og Asíu til Afríku og hefur nú náð alla leið til Suður-Ameríku. Um leið og sýking kemur í plöntuna drepur hún öll bananatré á afmörkuðu svæði og segja sérfræðingar að það sé mjög erfitt að losna við hana.