Í tímaritinu Áramótum, sem kom út í gærmorgun, 29. desember, er umfjöllun um 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan er hluti umfjöllunarinnar.

Framherjinn öflugi Orri Steinn Óskarsson, sem hefur slegið í gegn með íslenska landsliðinu, framlengdi þarsíðasta sumar við FC Kaupmannahöfn. Hann er með um 120 milljónir króna í árslaun hjá dönsku meisturunum.

Orri gekk í raðir FCK frá uppeldisfélaginu Gróttu árið 2020 þegar hann var 16 ára og spilaði fyrst um sinn með unglingaliði félagsins. Orri hefur spilað 28 leiki með aðalliði FCK á þessu tímabili og skorað átta mörk í öllum keppnum.

Ísak Bergmann Jóhannesson er kominn til þýska B-deildarfélagsins Fortuna Düsseldorf. Ísak Bergmann kemur til félagsins á eins árs lánssamningi frá FC Kaupmannahöfn. Ísak Bergmann hafði látið í ljós óánægju sína með spilatíma hjá danska liðinu eftir síðasta tímabil og þegar það breyttist ekki á þessu tímabili þá leitaði hann á nýjar slóðir, allavega tímabundið.

Guðlaugur Victor Pálsson gekk til liðs við belgíska liðið KAS Eupen. Landsliðsmaðurinn yfirgaf DC United í Bandaríkjunum og ákvað að spreyta sig aftur í evrópska boltanum. Hann gerði þriggja ára samning við belgíska liðið. Félagaskiptin komu mörgum á óvart þar sem Guðlaugur Victor var í mikilvægu hlutverki hjá DC United og var að leika vel með liðinu en hann sagðist sjálfur að þar sem hann væri orðinn 32 ára væri gott að fá góðan samning til þriggja ára.

Alfreð Finnbogason leikur einnig með KAS Eupen, en hann gekk í raðir félagsins frá Lyngby þar sem hann átti stóran þátt í því að halda félaginu uppi í dönsku úrvalsdeildinni.

Alfreð Finnbogason leikur með KAS Eupen í Belgíu, en hann gekk í raðir félagsins frá Lyngby.
© epa (epa)

Í tímaritinu Áramótum er listi yfir 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan má sjá fimmtán launahæstu:

  1. Jóhann Berg Guðmundsson Burnley um 580 m.kr.
  2. Aron Einar Gunnarsson Al Arabi um 360 m.kr.
  3. Rúnar Alex Rúnarsson Arsenal (Cardiff í láni) um 300 m.kr.
  4. Hákon Arnar Haraldsson Lille um 250 m.kr.
  5. Arnór Sigurðsson Blackburn um 210 m.kr.
  6. Albert Guðmundsson Genoa um 200 m.kr.
  7. Guðlaugur Victor Pálsson KAS Eupen um 190 m.kr.
  8. Alfreð Finnbogason KAS Eupen um 180 m.kr.
  9. Hörður Magnússon Panathinaikos um 150 m.kr.
  10. Ísak Bergmann Jóhannesson FCK (Dusseldorf í láni) um 130 m.kr.
  11. Andri Fannar Baldursson Bologna (Elfsborg í láni) um 125 m.kr.
  12. Orri Steinn Óskarsson FC Köbenhavn um 120 m.kr.
  13. Sverrir Ingi Ingason FC Midtjylland um 110 m.kr.
  14. Jón Daði Böðvarsson Bolton um 110 m.kr.
  15. Rúnar Már Sigurjónsson Voluntari um 100 m.kr.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Hægt er að lesa umfjöllunina í heild hér.