Nú þegar sumarið er hér um bil gengið í garð eru margir eflaust farnir að huga að garðinum. Landsmenn sökktu sér í pallasmíði og önnur verkefni heima fyrir síðasta sumar vegna faraldursins, og þótt bólusetningu landans miði ágætlega stefnir í annað eins nú í sumar.

Gunnlaugur Helgason húsasmíðameistari – betur þekktur sem Gulli – segir áhugann að vísu hafa vaxið statt og stöðugt síðustu ár, en í fyrra hafi orðið alger sprenging. „Það var varla hægt að fá eina spýtu, og mér sýnist stefna í annað svona sumar. Fólk er ekkert að fara til útlanda í stórum stíl, þannig að margir munu nota tækifærið og eyða tímanum í garðinum heima. Pallur sem slíkur er náttúrulega bara stækkun á húsnæðinu þínu. Þú ert bara að stækka íbúðina um svo og svo marga fermetra þessa daga sem hægt er að vera úti.“

Fjögur eða fimm aukaskip af pallaefni
Fólk sé að nota tækifærið núna til að gera hlutina sem það hafi hugsað um að gera lengi, þar sem það hafi loks bæði tímann og hugsanlega peninginn til þess líka, enda mikið sem sparast á því að sleppa utanlandsferðinni.

„Þeir segja mér það hjá Byko og Húsasmiðjunni að salan á pallaefni hafi verið gríðarleg síðustu ár. Það hefur þó verið enn meiri aukning eftir að faraldurinn hófst. Þeir segja að bílaplönin séu full af bílum með kerrur að ná sér í pallaefni. Það komu einhver fjögur eða fimm drekkhlaðin skip aukalega með ekkert nema pallaefni um borð í fyrra.“

Gulli hefur verið lengi í bransanum og smíðað ófáan pallinn í gegnum tíðina. Algengast er að pallar séu smíðaðir úr viði, en það hefur þó verið að breytast að hans sögn. Einskonar flísar hafi verið að ryðja sér hratt til rúms í stað viðarins sem pallaefni nýverið. „Fólk er svolítið í seinni tíð að horfa á ný efni bæði í pall og skjólvegg. Það er farið að hugsa út í hvað það getur gert sem er kannski ekki alveg eins og hjá öllum öðrum.“

Mun minna viðhald en á viðarpöllum
Umræddar flísar eru nokkuð stórar, 120 sinnum 120 sentímetrar eða 1,44 fermetrar að stærð hver og eru sérhannaðar sem útiflísar. „Þær eru mjög grófar og fínar. Síðustu ár hefur fólk verið að leita svolítið að nýjungum, og þá eru þessar flísar rosalega góður valkostur,“ segir hann. Þær gefi pallinum allt annað og nýtískulegra útlit. Flísalagðir pallar eru auk þess burðugri og harðari, sem gerir þá svo til viðhaldsfría. „Það eina sem þarf er smá vatn. Það er auðvitað mikill kostur, en það getur þó haft sína ókosti hvað þeir eru harðir. Það til dæmis brotnar allt sem lendir á þeim,“ segir Gulli kíminn.

„Flísarnar eru heldur ekki hálar. Ég rann til dæmis á rassinn um helgina á viðarpalli, sem hefði ekki gerst á flísapalli. Sumir fatta það ekki að það þarf að bera á pallinn á hverju ári eða annað hvert ár, eftir því hvar hann er. Viðarpallar verða hálir ef þú berð ekki á þá og hreinsar ekki af þeim. Þeir geta því verið varasamir ef ekki er hugsað vel um þá. Það safnast fyrir á þeim gróður eftir veturinn þannig að þú þarft að úða á hann efnum eða háþrýstiþvo hann. Þeir sem við erum að smíða eru úr svokölluðu lerki eða harðvið.“

Nánar er fjallað um málið í Heimili & Framkvæmdir, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .