Kristín Helga Magnúsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu 50skills. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Kristín kemur til 50skills frá Creditinfo Lánstrausti þar sem hún starfaði sem forstöðumaður vöru- og verkefnastýringar. Hún hefur meðal annars starfað á Indlandi og í Tékklandi. Þá starfaði hún sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs frá 2013-2014.

Kristín er með M.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Columbia-háskóla í New York og B.Sc. í hugbúnaðarverkfræði og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

„Við erum afar ánægð með að fá Kristínu Helgu með í framkvæmdastjórn 50skills, en hún mun gegna lykilhlutverki í uppbyggingu og vexti 50skills á alþjóðavísu. Kristín hefur víðtæka reynslu af þróun, nýsköpun og uppbyggingu á dreifileiðum. Við gætum ekki verið ánægðari með að fá jafn öflugan einstakling með í stjórnendateymið og hlökkum til að vinna með henni að frekari vexti og uppbyggingu á 50skills” segir Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi 50skills.