Ráðgjafarsvið KPMG hefur fengið til starfa þrjá nýja verkefnastjóra. Þetta eru þau Rut Gunnarsdóttir, Rúna Guðrún Loftsdóttir og Skúli Valberg Ólafsson.

Rut Gunnarsdóttir

Rut hefur hafið störf á ráðgjafarsviði í innri endurskoðun og áhættustjórnun. Hún hefur starfað við eftirlit og ráðgjöf á fjármála- og verðbréfamarkaði í um 20 ár. Hún starfaði áður hjá Íslandsbanka í 13 ár og stýrði þar regluvörslusviði bankans en þar áður starfaði hún hjá Fjármálaeftirlitinu við eftirlit með fjármálafyrirtækjum, útgefendum, vátryggingafélögum og lífeyrissjóðum.

Rut er lögfræðingur frá HÍ og er með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Hún lauk MBA námi frá UIBS, Barcelona, og hefur einnig lokið verðbréfaréttindaprófi ásamt því að vera viðurkenndur stjórnarmaður.

Rúna Guðrún Loftsdóttir

Rúna mun sérhæfa sig í Microsoft 365 ráðgjöf og hagnýtingu Microsoft lausna og þjónustu. Hún hefur unnið að Microsoft innleiðingarverkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Einnig starfar Rúna hjá Opna Háskólanum í Reykjavík við fræðslu í Microsoft lausnum, ásamt því að kenna þar upplýsingatækni í verkefnastjórnunarnámi APME.

Rúna hóf störf hjá KPMG í maí 2023. Áður var hún sjálfstætt starfandi hjá fyrirtæki sínu, Decasoft en Rúna hefur sinnt verkefnum við innleiðingar ITIL ferla og verklags, unnið að þjónustuhönnun, verkefnastjórn við innleiðingar á kerfum og lausnum, ásamt Microsoft 365 ráðgjöf og fræðslu.

Rúna hefur áður starfað hjá Alvogen/Alvotech, Össur hf., Advania og Upplýsingatæknisviði Reykjavíkurborgar.

Rúna er með IPMA vottun í verkefnastjórn, ITIL4 vottun í ferlum og verklagi í upplýsingatækni og Microsoft kerfisstjórn.

Skúli Valberg Ólafsson

Skúli hóf störf á ráðgjafarsviði í haust. Hann hefur áratuga reynslu sem leiðtogi, stjórnandi og ráðgjafi í upplýsingatækni- og fjármálageiranum auk þess að taka virka þátt í nýsköpun. Skúli hefur sérhæft sig í stjórnunaraðferðum og skipulagi fyrirtækja og stofnana í stafræna hagkerfinu, breytingastjórnun og innleiðingu breytinga með markmiðadrifnu skipulagi.

Skúli starfaði áður m.a. með Kolibri, Raiffeisen Bank International, Straumi – Burðarás fjárfestingabanka, OZ.com og EJS og hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja.

Skúli er með gráður í iðnaðar- og kerfisverkfræði frá University of Florida, MBA frá Háskólanum í Reykjavík, Diploma Digital Business frá MIT/Columbia og stundar rannsóknarnám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík.

Um ráðgjafarsvið KPMG

Á ráðgjafarsviði KPMG á Íslandi starfa um 60 ráðgjafar sem veita fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum ráðgjöf á sviði rekstrar, sjálfbærni, áhættu- og upplýsingatækni. Ráðgjafarsvið KPMG er enn fremur hluti af 1.500 manna ráðgjafarteymi KPMG á Norðurlöndunum sem hefur nær daglega aðkomu að ráðgjafaverkefnum fyrir viðskiptavini KPMG á Íslandi.