*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 5. apríl 2021 11:14

A-hlutinn verði brytjaður niður

Lending Íbúðalánasjóðs og Menntasjóðs í A-hluta hins opinbera kallar á breytingar á lögum um opinber fjármál.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Til skoðunar er í ráðuneytinu að leggja til að A-hlutanum verði skipt upp í þrjá hluta til að bregðast við þeim áhrifum sem endurflokkun opinberra aðila, milli A- og B-hluta hins opinbera, hafði. Endurflokkunin hafði meðal annars þau áhrif að eignir jukust mjög en hið sama gerðu skuldir en þær liðlega tvöfölduðust á einu bretti við það að gamli Íbúðalánasjóður og Menntasjóður námsmanna duttu í A-hlutann.

Að mati hins opinbera er nauðsynlegt að gera breytingu á lögum um opinber fjármál vegna þessa. Sem stendur er unnið með að búta A-hlutann niður, þar sem svokallaður A1-hluti yrði áþekkur þeim A-hluta sem þekkist í dag. Lána- og fjárfestingasjóðum og hlutafélögum sem sinna hlutverkum á sviði opinberrar þjónustu yrði hent í A2 og A3 og þeir aðilar undanþegnir ýmsum skilyrðum sem almennt gilda um A-hluta hins opinbera. Eftir sem áður kæmu þau fram í samstæðuyfirliti ríkisins. Stefnt er að því að umræddri vinnu verði lokið áður en árið er á enda.

Samkvæmt fyrrnefndum lögum um opinber fjármál er í gildi skuldaregla – þar eru lífeyrisskuldbindingar og viðskiptaskuldir undanskildar – um að heildarskuldir séu lægri en sem nemur 30% af VLF. Eftir fjármálahrun jukust skuldir skarpt en frá árinu 2013 voru þær markvisst greiddar niður og samkvæmt eldri flokkun skilaði hið opinbera sér niður fyrir 30% markið árið 2018. Eftir endurflokkun kemur aftur á móti í ljós að það var alla tíð víðsfjarri markinu, skuldir hafa um tvöfaldast frá fyrri flokkun, og markmiðið því óraunhæft í upphafi.

Stefnumörkun hefur lítil áhrif á sjóðina

Eins og það væri ekki nóg þá voru eignir og skuldir ÍLS nýverið endurmetnar fyrir árið 2019. Þá fór í fyrsta sinn fram gangvirðismat á sjóðnum og var munurinn á eignum og skuldum neikvæður um 178 milljarða króna. Skýrir það stökk í hlutfalli skulda af VLF á árinu 2019. Áhrif endurflokkunarinnar á hreina peningalega eign, það er peningaeign að frádregnum heildarskuldum, er almennt jákvæð á tímabilinu ef frá eru talin árin 2017-19 en þau ár versnar staðan um 40-100 milljarða króna á ári.

Í fjármálaáætlun kemur fram að nauðsynlegt sé að bregðast við þessum breytta veruleika og blasi tvö verkefni þar við. Annars vegar þurfi að bregðast við fyrrgreindri breytingu á skuldastöðu og hins vegar er afkomuþróun ÍLS og MSN en sú er að langstærstum hluta háð þróun á mörkuðum. „Þannig eru áhrif þeirra á afkomumarkmið hins opinbera ófyrirsjáanleg og án beinnar tengingar við stefnumörkun stjórnvalda á sama máta og hefðbundinn rekstur hins opinbera. Því falla þessir aðilar illa undir regluverk opinberra fjármála en stefnumörkun um afkomuþróun verður ómarkvissari að þeim viðbættum,“ segir í viðauka við hana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.