Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak.

Verði frumvarpið að lögum mun einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) verða aflagt og smásölum gert heimilt að selja áfengi að ákveðnu marki.

Með frumvarpinu er lagt til að nafn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins muni breytast í Tóbaksverslun ríkisins. Þá kemur fram að smásölum verður heimilt að selja áfengi frá kl. 09 að morgni til kl. 20 að kvöldi, en sveitarstjórnum verði heimilt að ákveða skemmri afgreiðslutíma.

Þá er lögð til heimild til þess að innheimta 50.000 kr. gjald vegna útgáfu leyfis til smásölu á áfengi, og einnig að óheimilt sé að selja áfengi undir kostnaðarverði. Með kostnaðarverði er átt við endanlegt innkaupsverð að viðbættum opinberum gjöldum og virðisaukaskatti.