101 Hótel, sem er á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu, hagnaðist um 115 milljónir króna eftir 58 milljóna tap árið 2020.

Tekjur af seldum gistingum og veitingum meira en fjórfölduðust á milli ára og námu 311 milljónum króna. Rekstrartekjur hótelsins námu í heildina 377 milljónum á síðasta ári. Félagið nýtti sér úrræði ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19.

Rekstrargjöld jukust úr 181 milljón í 231 milljón á milli ára. Laun og launatengd gjöld voru um 82 milljónir í fyrra en níu starfsmenn störfuðu að meðaltali hjá félaginu á síðasta ári.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 333 milljónir í árslok 2021 og eigið fé var 261 milljón. 101 Hótel er í eigu Ingibjargar S. Pálmadóttur og tengdra aðila.

Í ársreikningi félagsins segir að hótelfélagið hafi gert leigusamning við IP Studium, fjárfestingarfélag Ingibjargar, um leigu á húsnæði að Hverfisgötu 4-6 og Hverfisgötu 8-10, sem er leigt undir hótelrekstur, veitingarekstur og skrifstofur í Reykjavík.

Leigusamningurinn tók gildi 1. desember 2021 og gildir til ársins 2036 án uppsagnarákvæða. Ónúvirtar árlegar skuldbindingar vegna húsaleigusamninga 101 Hótels, sem eru bundnir vísitölu neysluverðs, nema 144 milljónum króna.