Skráð atvinnuleysi í júlí 2008 var 1,1% og voru að meðaltali 1.968 manns á atvinnuleysisskrá.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en hlutfall atvinnuleysis er óbreytt frá júní og segir á vef stofnunarinnar að atvinnuleysi er enn með minnsta móti.

Hins vegar eru að jafnaði 126 fleiri atvinnulausir en í júní sem gerir um 7% aukningu. Árstíðabundin aukning vinnuafls hefur hins vegar áhrif á hlutfall atvinnuleysis á þriðja ársfjórðungi. Atvinnuleysi er nú nokkru meira en á sama tíma fyrir ári þegar það var 0,9%.

Atvinnuleysi eykst á höfuðborgarsvæðinu um 10% og er 1,1% en var 1% í júní. Á landsbyggðinni breytist atvinnuleysi lítið og er 1,3% eða sama og í júní. Atvinnuleysi karla eykst um 9% frá júní og er 0,9% en var 0,8% í júní.

Atvinnuleysi kvenna eykst um 5% en mælist enn 1,5% líkt og í júní. Þeim sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði fjölgar lítilsháttar og voru 500 í lok júlí en 477 í lok júní. Það var 231 atvinnulaus í meira en eitt ár í júlí og hefur fjöldi þeirra minnkað lítið eitt síðustu mánuði