Áætluð virðisaukning eignasafns Gamla Landsbankans nam rúmum 45 milljörðum króna milli tímabila. Í erlendum myntum talið er raunaukningin frá síðasta ársfjórðungi rúmlega 32 milljarðar króna og mismunurinn er að langmestu leyti vegna gengisbreytinga.

Talið er að endurheimtur í þrotabú gamla Landsbankans dugi rúmlega fyrir Icesave innlánum og heildsöluinnlánum.Þetta kemur fram á vef RÚV.

Árangur af endurheimtum úr eignasafni Landsbankans að undanförnu er talsvert umfram væntingar. Þær eru áætlaðar 1.332 milljarðar króna, 13 milljörðum umfram forgangskröfur.

Nýjar upplýsingar um áætlað virði eignasafns Landsbanka Íslands hf. (GLI) miðað stöðuna í lok júní voru kynntar kröfuhöfum bankans í dag. Þær benda til að verulegur árangur hafi náðst á öðrum ársfjórðungi þessa árs því áætluð virðisaukning eignasafnsins nemur rúmum 45 milljörðum króna milli tímabila.

Í erlendum myntum talið er raunaukningin frá síðasta ársfjórðungi rúmlega 32 milljarðar króna og mismunurinn er að langmestu leyti vegna gengisbreytinga. Sé miðað við fastsett gengi íslensku krónunnar frá 22. september 2009 eru endurheimtur áætlaðar um 1.332 milljarðar króna. Það er um 13 milljörðum króna meira en sem nemur heildarfjárhæð bókfærðrar stöðu forgangskrafna, en sú upphæð nam 1.319 milljörðum króna 30. júní síðastliðinn.

Með öðrum orðum er áætlað, miðað við stöðuna eftir fyrri helming þessa árs og áðurnefndar forsendur, að endurheimtur verði um 13 milljörðum króna hærri en sem nemur bókfærðum forgangskröfum í bankann. Stærstu hluti forgangskrafna eru endurgreiðslur vegna Icesave og heildsöluinnlán.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að raunaukning á áætluðum endurheimtum á öðrum ársfjórungi sé einkum til komin vegna hækkunar á verðmati á eignum bankans, meðal annars á kröfum á fjármálafyrirtæki, útlánum til fyrirtækja í lánasafni og hækkunar á áætluðu verðmæti skilyrta skuldabréfsins sem Landsbankinn hf. (áður NBI hf.) mun gefa út til GLI.

Ef áætlaðar endurheimtur eru miðaðar við gengi íslensku krónunnar á viðmiðunardögum nema þær 1.290 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar þann 30. júní, eða um 98% af bókfærðri stöðu forgangskrafna.

Sú jákvæða þróun heldur áfram að reiðufé skilar sér hraðar inn í bankann en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir og nam það 453 milljörðum króna um mitt þetta ár. Meginskýring á því er að útlán hafa innheimst hraðar en áður var gert ráð fyrir.

Reiðufé er nú sem nemur um rúmlega þriðjungi af bókfærðri stöðu forgangskrafna, áætlaðar endurheimtur samkvæmt samningi við Landsbankann hf (áður NBI hf.) nema um þriðjungi af verðmæti heildareigna og útlán og aðrar eignir nema um þriðjungi.

Áætluðu verðmæti 67 prósenta eignarhluta bankans í verslunarkeðjunni Iceland Foods var ekki breytt á tímabilinu, en hlutur bankans ásamt 10 prósenta eignarhluta Glitnis banka, samtals um 77 prósent, er í sameiginlegu söluferli.