Tap að fjárhæð 170,9 milljónir kr. var af rekstri Sæplast hf. árinu 2004, samanborið við 268,9 milljónir kr. á árinu 2003. Veltufé frá rekstri var 33,5 milljónir króna og handbært fé frá rekstri nam 22 milljónum króna. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var á árinu 147 milljónir króna eða 6,2% af tekjum.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur fram að rekstur félagsins á fjórða ársfjórðungi 2004 varð mun erfiðari en áætlanir gerður ráð fyrir. Réðst það einkum af því að áætlanir um sölu í Noregi gengu ekki eftir sem meðal annars má rekja til þess að markaður fyrir flot á nætur sem hefur verið mjög mikilvægur í rekstri fyrirtækisins er enn þá í mikilli lægð. Þá hafði styrking íslensku krónunnar á síðustu mánuðum ársins neikvæð áhrif á afkomu félagsins á Íslandi. Á árinu 2004 voru dótturfélögin á Dalvík, í Hollandi, á Spáni og á Indlandi rekin með hagnaði en í Noregi og Kanada með tapi. Þrátt fyrir tap varð bati til hins betra frá fyrra ári á rekstrinum í Kanada. Hagnaður fyrirtækisins á Dalvík var lægri en á fyrra ári vegan töluvert minni sölutekna og óhagstæðrar þróunar á gengi íslensku krónunnar. Rekstur fyrirtækisins í heild á árinu var að áliti stjórnenda óviðunandi.

Sem hluti af þeirri stefnu eigenda félagsins að efla félagið með ytri vexti og þar með dreifa áhættu í rekstri þess keypti Sæplast í árslok 2004 Tempru hf. en Tempra er leiðandi fyrirtæki á íslenskum markaði í framleiðslu á kössum fyrir fisk og fiskafurðir og einangrunarplasti úr polystyren. Fyrirtækið er með rekstur í Hafnarfirði, Kópavogi og Reyðarfirði og hefur skilað góðri rekstrarafkomu á undanförnum árum. Kaupin á Tempru hf. koma inn í efnahafsreikning Sæplast hf. miðaða við 31. 12. 2004 en í rekstur frá 1. 1. 2005.

Í upphafi árs 2005 var stofnað sérstakt félag Sæplast Ålesund AS. um hverfi-steypurekstur félagsins í Noregi. Markmiðið með þessar breytingu er að auka sérhæfinu í rekstrinum í Noregi með aukinni áherslu á annars vega hverfisteypar vörur og hins vegar á flot, baujur og fríholtum jafnframt því að dreifa áhættu.

Þá var í árslok 2004 framleiðsla og sala félagsins á trollkúlum sameinuð framleiðslu tveggja danskra fyrirtækja og stofnað um þá starfsemi sérstakt félag Atlantic Floats ehf. Gert er ráð fyrir því að þessi aðgerð bæti afkomu þessarar rekstrareiningar.

Áætlun um rekstur Sæplast samstæðunnar fyrir árið 2005 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur verði 3.2 ? 3.4 milljarðir króna og að EBITDA framlegð verði 11 til 13%. Verkefnastaða dótturfélaga fyrirtækisns nú í upphafi ár er almennt góð. Eins og fram hefur komið í tilkynningum félagsins þá var ákveðið á miðju s.l. ári að fjárfesta í nýjum tækjabúnaði fyrir verksmiðju fyrirtækisins í Álasundi sem framleiðir fríholt og baujur. Unnið er samkvæmt áætlun sem gerir ráð fyrir því að verulegur hluti þess búnaðar verði tekinn í notkun á miðju ári.

Á árinu 2004 var vöruþróun fyrirtækisins efld verulega með það markmið að auka framboð á vörum sem ætlað er í auknu mæli að mæta sérhæfðum þörfum markaðarins, dreifa þannig áhættu í rekstri og styrkja stöðu þess gagnvart samkeppnisaðilum. Stjórn og stjórnendur félagsins mun á næstu misserum vinna áfram að eflingu félagsins með frekari hagræðingar aðgerðum, sókn á nýja markaði og stækkun þess með innri og ytri vexti.

Þann 10. nóvember s.l. var félagið afskráð af Kauphöll Íslands og er það nú rekið sem sjálfstætt dótturfélag í eigu Atorku Group hf.