*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 26. nóvember 2019 09:44

19 sagt upp hjá Odda

„Verið mjög slæmur rekstur á Odda“ Þriðjungi starfsfólks prentsmiðjuhluta nýsameinaðs fyrirtækis Prentmet Odda sagt upp.

Ritstjórn
Hörður Kristjánsson

Nýsameinað fyrirtæki Prentmet Oddi hefur sagt upp einum19 manns Odda megin, það er þriðjungi í prentsmiðjuhluta fyrirtækisins, að því er DV greinir frá. Guðmundur Ragnar Guðmundsson annar stofnenda Prentmets sem keypti prentsmiðjuna Odda á síðasta ári segir að hagrætt hafi verið síðustu mánuði en það virðist ekki hafa dugað til.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint ítarlega frá keypti Prentmet prentsmiðju Odda á fyrri hluta ársins, sem Samkeppniseftirlitið samþykkti nú í október, og í kjölfarið setti fyrirtækið húsnæði Prentmets á sölu.

„Því miður eru þetta nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir. Samúð mín er hjá starfsmönnum á þessum erfiðu tímum,“ segir Guðmundur Ragnar sem samt sem áður segist líta björtum augum til framtíðar.

„Við vorum í þeim sporum að þurfa að kaupa þennan rekstur eða láta hann fara. Ég lærði þarna á sínum tíma og það var af ástríðu fyrir faginu sem ég vildi bjarga því sem hægt var að bjarga. Það er þá tveir þriðju af starfsfólki prentsmiðjunnar sem heldur störfum. Það hefur bara verið mjög slæmur rekstur á Odda undanfarin ár og gríðarlegt tap. Við erum hins vegar að reyna að búa til rekstrarhæft félag.“