Búið er að gefa út 19,5 milljarða skuldabréf Hörpu og birta útgáfulýsingu bréfanna. Útgefandi er Greiðslumiðlunin Hringur ehf., sem er sérstakt félag um fjárhagsskuldbindingar vegna Hörpu.

Um er að ræða verðtryggt jafngreiðslubréf með 394 greiðslum en síðasti gjalddagi bréfsins er 17. Febrúar 2046.  Fyrsti gjalddagi er 17. maí næstkomandi. Af verðtryggðum höfuðstól skuldabréfsins greiðast 3,55% fastir flatir vextir mánaðarlega. Skuldabréfin eru án uppgreiðsluheimildar.

Ýmsar kvaðir fylgja skuldabréfaúgáfunni en útgefandi skuldbindur sig til dæmis til að hækka hvorki né lækka hlutafé án þess að fá samþykki 75% skuldabréfaeigenda. Ekki er heldur heimilt að greiða arð nema að fengnu samþykki 75% eigenda bréfanna.

Óheimilt að veðsetja eignir

Samkvæmt útgáfulýsingunni er útgefanda einnig óheimilt að veðsetja eignir í öðrum tilgangi en til að tryggja efndir þessarar skuldabréfaútgáfu. Mánaðarlegt framlagt Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins skal fyrst renna til að greiða af bréfinu áður en það er nýtt í aðrar greiðslur.

Fyrir skuldabréfaútgáfunni er veð í fasteigninni að Austurbakka 2 auk veðs í kröfum útgefefanda á hendur Hörpu, íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar vegna verkefnissamningsins þeirra á milli. Handveðréttur er í bankareikningi útgefanda og í öllu hlutafé útgefanda.

Þess má geta að áður var gert ráð fyrir skuldabréfaútgáfunni um mitt síðasta ár en útgáfan frestaðist vegna endurskipulagningar á félögum Hörpunnar. Það var Landsbankinn sem sölutryggði útgáfuna eins og áður hefur verið greint frá.