Útflutningur frá Íslandi á fyrsta ársfjórðungi 2016 nam 132,6 milljörðum króna meðan innflutningur nam 157,4 milljörðum króna. Þetta þýðir að 25 milljarða króna vöruskiptahalli varð á tímabilinu. Afgangur af vöruviðskiptum á síðasta ári var jákvæður um 5,6 milljarða króna, en þennan mikla viðsnúning má rekja til talsvert minni útflutnings milli ára. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem birt var í dag.

Fyrst og fremst má rekja samdráttinn til minna útflutningsverðmætis af stóriðjutengdum útflutningi. Útflutningsverðmæti áls dróst þá saman um 26,4 milljarða króna og útflutningsverðmæti sjávarafurða var 7,4 milljörðum króna minna en í fyrra. Heimsmarkaðsverð áls hefur lækkað á síðustu misserum og hefur ekki verið jafn lágt síðan árið 2009.

Lækkandi heimsmarkaðsverð olíu hefur haft talsverð áhrif á verðmæti olíuinnflutnings til Íslands. Þannig hefur það dregið úr gjaldeyrisútstreymi. Í tonnum talið jókst innflutningur á margskonar eldsneyti um 9,2% í tonnum talið - en 7,3% af þessari aukningu var vegna þotueldsneytis - en þegar talið er í innflutningsverðmæti dróst það saman um 35% milli ára. Til samanburðar lækkaði verð Brent-hráolíu um 37% á sama tímabili.