Sænska ríkisstjórnin hefur varið 2,7 milljónum sænskra króna (um 27 millj. ísl. kr.) til að kanna hvernig auka megi hagkvæmni í innflutningi neysluvarnings til Svíþjóðar. Það eru sænsku systursamtök SVÞ, Svensk Handel, sem stjórna verkefninu í samstarfi við sænska útflutningsráðið og fjölmarga aðra aðila. Með þessu verkefni kemur fram það viðhorf að hagkvæmni í innflutningi skipti ekki síður máli en efling útflutnings.

Tilgangur verkefnisins er að auka þekkingu á því hvernig Svíþjóð lítur út sem markaðssvæði fyrir erlenda útflytjendur, kanna hvernig megi auðvelda störf fyrirtækja sem tengjast innflutningi og styrkja viðskiptasambönd við útlenska aðila sem flytja til Svíþjóðar. Verkefnið nær til fjölmargra greina, eins og matvæla, fatnaðar, véla og byggingarefnis. Haldin verða námskeið og veitt ráðgjöf til lítilla og miðlungsstórra fyrirtækja. Þau svæði sem verkefnið nær til eru m.a. Brasilía, Indland, Suður-Afríka, Tailand og Víetnam.