„Þetta eru óverulega upphæðir í stóra samhenginu,“ segir Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar sem sæti á í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu sem lagt var fram á fundi nefndarinnar ásamt gögnum frá ríkisskattstjóra í morgun kemur fram að 28 einstaklingar úr 20 fjölskyldum sem greiða auðlegðarskatt hafi flutt lögheimili sitt til annarra landa á árinu. Þessi einstaklingar greiddu samtals 52 milljónir króna í auðlegðarskatt.

Magnús Orri segir nefndina hafa kallað eftir upplýsingum um það frá ríkissskattstjóra hversu margir þeirra sem greiði auðlegðarskatt hafi flust frá landinu. Hann segir tölur ríkisskattstjóra stangast á við þær fullyrðingar sem fram hafi komið um brottflutning fólks.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að tugir stóreignamanna hafi flutt lögheimili sitt til útlanda á árinu vegna skattsins og hafi fyrirspurnum til endurskoðenda og sérfræðinga í skattamálum fjölgað verulega eftir að skatturinn var tekinn upp.

Í auðlegðarskattinum felst að 1,5% álögur leggjast á hreinar eignir einstaklinga sem áttu meira en 75 milljónir í hreina eign og maka sem átti meira en 100 milljónir.

Auðlegðarskatturinn skilaði 3,8 milljörðum króna til ríkissjóðs í fyrra. Í ár var skatthlutfallið hækkað, eignamörk sem hann er miðaður við lækkuð og skattinum skipt í tvö þrep. Það skilaði sér í 6,6 milljarða króna auðlegðarskatti. Um 3.800 einstaklingar greiddu auðlegðarskatt í fyrra en búist er við að þeir verði 4.800 í ár.