Heildarviðskipti með hlutabréf í októbermánuði námu 2.775 milljónum króna eða 132 milljónum króna á dag. Til samanburðar var veltan í september 2.326 milljónir króna eða 106 milljónir á dag.

Mest voru viðskiptin með bréf Össurar, alls 2.213 milljónir króna. Viðskipti með Marel námu 498 milljónum króna og Atlantic Petroleum 37 milljónir, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,14% á milli mánaða og stendur í 949 stigum. Af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala orkuvinnslu mest eða 11,4%.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina 46,8% (18,2% á árinu),  H.F. Verðbréf með 25,4% (8,4% á árinu) og Virðing með 8,9% (3,5% á árinu).