29 skólar fengu í vikunni styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar. Frá þessu er greint á vef Landsbankans. Styrkirnir í ár nema alls níu milljónum króna. Sjóðurinn var stofnaður árið 2014 til þess að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Skólarnir sem fengu styrk eru: Álftanesskóli, Bíldudalsskóli, Dalvíkurskóli, Egilsstaðaskóli, Flataskóli, Flúðaskóli, Foldaskóli, Giljaskóli, Grenivíkurskóli, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar, Gunnskóli Grundarfjarðar, Grunnskólinn í Stykkishólmi, Háaleitisskóli, Hlíðaskóli, Höfðaskóli, Kársnesskóli, Landakotsskóli, Laugarnesskóli, Myllubakkaskóli, Norðlingaskóli, Njarðvíkurskóli, Sjálandsskóli, Skarðshlíðarskóli, Táknafjarðarskóli, Valsárskóli, Varmahlíðarskóli, Vesturbæjarskóli, Víkurskóli og Vogaskóli.

1,5 milljón rann til námskeiða innan skólanna en 7,5 milljónir til kaupa á smærri tækjum í forritunar og tæknikennslu ásamt úthlutun á notuðum tölvubúnaði. Ljóst er að þörfin á stuðningi á þessu sviði er mikill. Mestur áhugi var fyrir því að fá styrki til kaupa á minni tækjum en einnig er mikið sótt um styrki fyrir námskeið og notaðan tölvubúnað.

Sigfríður Sigurðardóttir, formaður stjórnar Forritara framtíðarinnar:

„Við stöndum frammi fyrir því að hér er skortur á fólki menntuðu í upplýsingatækni. Börn og unglingar verja miklum tíma í notkun tækni en brýnt er að þjálfa og mennta þau til að nýta sér tæknina í víðari skilningi – og spilar sjóðurinn þar mikilvægt hlutverk. Háskólar landsins útskrifa tæknimenntað fólk sem annar um það bil 50% eftirspurnar atvinnulífsins og á næstu árum er því þörf fyrir að minnsta kosti 100% aukningu á þessu sviði til þess að brúa bilið. Á sama tíma er mikill skortur á tækni- og tölvukennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.”

Hollvinir sjóðsins í ár eru Landsbankinn, RB, CCP, Össur, Íslandsbanki og Webmo design.