Fyrirtækið 3-PLUS hefur ákveðið að skrá sig á isec, nýjan hlutabréfamarkað sem Kauphöllin opnar í desember. Nokkur önnur framsækin fyrirtæki hafa sýnt markaðnum áhuga segir í frétt Kauphallartíðinda. 3-PLUS framleiðir og selur leiktæki og leiki sem kallast dvd-kids. Leiktækin breyta DVD-spilurum í leikjavél fyrir börn. 3-PLUS fékk nýverið verðlaun í nýmiðlunarkeppni Sameinuðu þjóðanna, World Summit Award, eitt fyrirtækja á Norðurlöndum.

Í desember hyggst Kauphöllin opna nýjan hlutabréfamarkað sem einkum er ætlaður smáum og millistórum fyrirtækjum. Markaðnum er ætlað að leiða saman fjárfesta og framsækin fyrirtæki með vaxtarmöguleika. Markaðurinn hefur hlotið nafnið isec sem vísar til þess að um annan markað Kauphallarinnar er að ræða sem sérstaklega er ætlaður framsæknum fyrirtækjum (?i' fyrir ICEX og ?innovative", ?sec' fyrir ?second"). Breytingar á kauphallalögum sl. vor gera stofnun isec mögulega, en með þeim breytingum var skilgreind ný tegund markaðar, svokallað markaðstorg fjármálagerninga eða MTF og telst isec til þeirra.

Í Kauphallartíðindum kemur fram að góðan vettvang hefur vantað fyrir viðskipti með smá og millistór fyrirtæki, ekki síst fyrir fyrirtæki í nýsköpun í leit að fjármagni til vaxtar. Án markaðar fyrir hlutabréfin eru viðskipti með þau erfiðari og upplýsingagjöf takmörkuð. isec er ætlað að bæta úr þessu. "Með skráningu á isec geta fyrirtækin vænst aukins seljanleika hlutabréfa þeirra. Þá er í reglum isec gerð krafa um skipulega upplýsingagjöf um allt það sem talið er skipta máli við mat á verðmæti hlutabréfa. Með öflugu eftirliti verður staðinn vörður um jafnræði fjárfesta til upplýsinga en eftirlitið mun byggja á þeim kerfum og eftirlitsferlum sem Kauphöllin hefur stuðst við í eftirliti á Aðallistanum. Með því að undirgangast kröfur markaðarins geta fyrirtækin þannig styrkt ímynd sína," segir í Kauphallartíðindum.

Á isec eru engin lágmarksskilyrði um stærð félags, lengd rekstrarsögu eða dreifingu eignarhalds, en stjórnendum er gert að lýsa því yfir að félagið hafi aðgang að nægu rekstrarfé til a.m.k. 12 mánaða frá skráningardegi. Hafi félag takmarkaða rekstrarsögu eru að auki settar hömlur á sölu stjórnenda á
hlutabréfum félagsins í 12 mánuði frá því félagið er skráð á isec. Áður en til skráningar á isec kemur birta félög yfirgripsmikið skráningarskjal sem leggur grunn að viðvarandi upplýsingaskyldu þeirra. Eftir að á markaðinn er komið ber félögum ávallt að birta tafarlaust upplýsingar sem geta talist
verðmótandi. Þá er gerð krafa um birtingu hálfsársuppgjörs og ársuppgjörs. Ákvæði laga um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun gilda að fullu um isec en ekki reglur um yfirtökuskyldu og flagganir. Félög á isec munu birta reglulega lista yfir stærstu hluthafa.

Viðskipti á isec fara fram í SAXESS viðskiptakerfinu, sem er í notkun á öllum verðbréfamörkuðum Norðurlandanna. Með þessu trausta reglu- og viðskiptaumhverfi er isec ætlað að opna leið fyrir smá og millistór fyrirtæki inn á hlutabréfamarkað, sviði sem hefur reynst skráðum fyrirtækjum vel á
undanförnum árum og leikið lykilhlutverk í hröðum vexti þeirra. Eins og eðlilegt er á markaði fyrir ung og upprennandi fyrirtæki, má gera ráð fyrir að fjárfestingum í fyrirtækjum á isec fylgi að jafnaði meiri áhætta en almennt fylgir fjárfestingum í fyrirtækjum sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar.

Í þeim tilgangi að efla enn frekar ímynd isec sem markað framsækinna fyrirtækja hafa Kauphöllin og Seed Forum International Foundation (SFIF) skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf. SFIF eru alþjóðleg samtök sem hafa það markmið að kynna framsækin fyrirtæki fyrir fjárfestum. Fyrirtækin sem SFIF kynna fjárfestum eru valin á grundvelli útnefninga í hverju aðildarlandi samtakanna (sem nú telja Norðurlönd, Eystrasaltsríkin, Pólland og Rússland). Viljayfirlýsingin er í stórum dráttum þess fnis að Kauphöllin veki athygli á SFIF í tengslum við markaðinn með ýmsum hætti og SFIF mæli með og kynni isec fyrir þeim félögum sem valin eru til kynningar fyrir fjárfestum.