Neysluvísitalan í Bretlandi hækkaði úr 3,8% í 4,1% í apríl og hækkar því verðbólgan þar í landi um 0,8% milli mánaða. Aukning verðbólgu milli mánaða ekki verið meiri síðan í mars 2001.

Ársverðbólga í Bretlandi mælist því 3,0% í apríl en á fréttavef BBC er greint frá því að sérfræðingar höfðu að meðaltali gert ráð fyrir 2,6% verðbólgu í apríl. Verðbólga í mars var 2,5%.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC. Það er fyrst og fremst hækkandi matvæla- og eldsneytisverð sem hefur hækkandi áhrif á neysluvísitöluna nú.

Verðbólgumarkmið Englandsbanka er 2% og fari verðbólga í eða yfir 3% ber Mervyn King, seðlabankastjóra samkvæmt lögum að senda fjármálaráðherra opið bréf þar sem hann skýrir orsök verðbólgunnar. Þá þarf hann að greina frá þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru af bankanum og setja upp tímaramma þar sem gert er ráð fyrir minnkandi verðbólgu á ný.

Seðlabankastjóri hefur einu sinni  áður þurft að skrifa slíkt bréf en það var í apríl í fyrra.

Í ljósi þessa gera greiningaraðilar ekki ráð fyrir því að Englandsbanki lækki stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans sem er 5. júní en stýrivextir eru nú 5%.