Á síðustu vikum og mánuðum hefur 30 verslunum í miðbæ Reykjavíkur verið lokað, en minnst 43 verslanir á svæðinu hafa treyst á tekjur af ferðamönnum að því er Fréttablaðið greinir frá.

Um er að ræða verslanir sem selja íslenskar vörur ýmis konar eins og minjagripi, ullarvörur og útivistarfatnað, en þar af eru 25 svokallaðar lundabúðir. Búið er að loka 23 þeirra og tæma 11 af þeim. Ætla má að ef hjá hverri verslun hafi starfað um 5 til 6 starfsmenn þá séu um 200 töpuð störf í þeim verslunum sem hafa lokað.

Átta fyrirtæki reka verslanirnar en þeirra stærst er Drífa ehf., sem rekur Icewear verslanirnar, en þeir reka einnig verslanir á landsbyggðinni, þar á meðal í Vík í Mýrdal. Hefur félagið einungis lokað einni verslun í miðbænum, í Grófinni, en félagið velti rúmlega 3 milljörðum króna á síðasta ári.

Næst stærsta keðjan, Geysir , rekur 11 verslanir í miðborginni, en hefur lokað 7 þeirra. Þrjár þeirra sem eru undir vörumerkinu Geysir og ein undir Fjallräven eru enn opnar en verslanir Lundans, Óðinn, Thor og Jólahúsið hefur verið lokað. Veltan hjá dótturfélaginu sem rekur verslanirnar þénaði 1,6 milljarð króna árið 2018.

Allar þrjár The Viking verslanir Pennans hefur verið lokað en Islandia verslun félagsins er enn opin, og önnur tveggja verslana Sjóklæðagerðarinnar , undir merkjum 66° Norður hefur verið lokað, en báðar eru þær á Laugavegi.

Öllum verslunum Bolasmiðjunnar , nema einnar það er Ísbjörninn, hefur verið lokað, en þau eru með vörumerkin Woolcano, I don´t speak Icelandic, Reykjavík T-shirts og Reykjavík Gift Store. Jafnframt hefur öllum verslunum Nordic Store , sem bera einnig vörumerkin Shop Icelandic og Álafoss, verið lokað sem og báðar verslanir Arctic Workshop og tvær af þremur verslunum Rammagerðarinnar .

Samkvæmt heimildarmanni var veltan hjá einu fyrirtæki komin í 40% af því sem hún var í fyrra þegar landinu var lokað á ný í haust, en þá hafði verið hægt að reikna með að reksturinn yrði við núllið.