Fjöldi farþega Flugfélags Íslands jókst um 8% á árinu 2006 miðað við árið 2005 að því er kemur fram í frétt frá félaginu. Heildarfjöldi farþega í áætlunarflugi var um 380 þúsund þar af voru um 18 þúsund farþegar í millilandaflugi til Færeyja og Grænlands.

Flogið var til 4 áfangastaða innanlands frá Reykjavík, til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og frá miðjum október til Vestmannaeyja. Til 3 áfangastaða var flogið frá Akureyri, til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar. Millilandaáfangastaðir félagsins eru sem fyrr á Grænlandi, Kulusuk, Constably Pynt og Narsarsuaq og Vagar í Færeyjum.

Mesta aukning farþega var á leiðinni milli Reykjavíkur og Egilsstaða eða um tæplega 9%, á leiðinni til Akureyrar var aukningin um 7%. Þetta eru jafnframt stærstu áfangastaðir félagsins, til og frá Akureyri voru fluttir tæplega 180 þúsund farþega og til og frá Egilsstöðum um 130 þúsund farþegar segir í frétt FÍ.