Ákveðið hefur verið að verja 32 milljónum króna í mannúðaraðstoð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Féð rennur annars vegar til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, vegna mataraðstoðar við flóttamenn frá Sýrlandi, og hins vegar til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, vegna baráttu gegn ebólu í Vestur-Afríku.

Í tilkynningu er haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra að mikil þörf sé fyrir mataraðstoð til sýrlenskra flóttamanna. Matvælaáætlun SÞ þurfti að hætta mataraðstoð til 1,7 milljóna flóttamanna í byrjun desember þar sem sjóðir voru uppurnir, en í kjölfar ákalls var hægt að hefja aðstoð að nýju. Sjóðirnir sem safnast hafa duga þó einungis fram í janúar.

Með framlagi Íslands til UNICEF er verið að bregðast við neyðarkalli vegna ebólu. Þegar hafa verið veittar 37 milljónir í baráttu gegn ebólu á árinu, og 33 milljónir vegna ástandsins í Sýrlandi.