Um 48% Reykvíkinga eru óánægðir með störf Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Þetta kemur fram í könnun Maskínu sem birtist í dag.

Samkvæmt könnuninni eru 32,1% mjög óánægð með störf Dags og 15,6% fremur óánægð. Hins vegar eru 11,8% mjög ánægð og 15,9% fremur ánægð. Tæp 25% eru í meðallagi ánægð.

Sanna vinsælasti borgarfulltrúinn

Sanna Mörtudóttir í Sósíalistaflokknum er vinsælasti borgarfulltrúinn en 15,5% greiddu atkvæði með henni þegar spurt var um hvaða borgarfullrúi hafi staðið sig best á kjörtímabilinu.

Dagur Eggertsson í Samfylkingunni kemur næstur með 12,9% og Hildur Björnsdóttir í Sjálfstæðisflokki er skammt undan með 12%.

Könnun Maskínu var framkvæmd um mánaðamótin nóvember desember 2022 og náði til rúmlega sjö hundruð íbúa borgarinnar, átján ára og eldri.