Á næstu klukkustundum ræðst hvort tekst að bjarga Scandinavian Airlines - SAS frá gjaldþroti. Stjórnendur flugfélagsins hafa alla helgina fundað um niðurskurð í rekstri félagsins og breytingar á kjaramálum starfsmanna þess.

„Það eru 50% líkur á árangri" sagði Eivind Roald aðstoðarframkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá félaginu fyrir nokkrum mínutum í samtali við norska dagblaðið Aftenposten.

Litlar fréttir hafa verið af gangi mála og hafa fulltrúar starfsmanna kvartað undan því í dönskum fjölmiðlum að lítið samráð hafi verið í dag. Til að mynda sagði fulltrúi flugliða seinnipartinn í dag í samtali við danska viðskiptablaðið Börsen að engin viðbrögð hefðu fengist við tilboði þeirra sem skilað var inn kl 10 í morgun, á dönskum tíma.

SAS rekur 138 flugvélar og eru áfangastaðir félagsins í kringum 90. Stærstu eigendur flugfélagsins eru sænska ríkið, danska ríkið og norska ríkið.

Hér má sjá stærstu hluthafa félagsins og hlutafjáreign í %:

  1. Sænska ríkið 21.4%
  2. Danska ríkið 14.3%
  3. Norska ríkið 14.3%
  4. Knut og  Alice Wallenberg sjóðurinn 7.6%
  5. Försäkringsaktiebolaget, Avanza Pension 1.5%
  6. A.H Värdepapper AB 1.4%
  7. Unionen 1.4%
  8. Seðlabanki Danmerkur 1.4%
  9. Robur Försäkring 0.9%
  10. Ponderus Försäkring 0.8%
  11. Andra AP-fonden 0.5%
  12. Tredje AP-fonden 0.5%
  13. SSB+TC Ledning Omnibus FD No OM79 0.5%
  14. Nordnet Pensionsförsäkring AB 0.4%
  15. Swedbank Robur Sverigefond 0.4%
  16. Swedbank Robur Sverigefond Mega 0.3%
  17. JPM Chase NA 0.3%
  18. AMF Aktiefond Småbolag 0.3%
  19. JP Morgan Bank 0.3%
  20. KPA Pensionsförsäkring AB 0.2%
  21. Nomura International 0.2%