Ákvarðaðar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af íbúðarlánum, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2007, nema 6,6 milljörðum króna í ár.  Vaxtabætur fá rúmlega 58  þúsund aðilar og hefur þeim fjölgað um 17,3% frá fyrra ári. Meðalvaxtabætur eru nú 114 þúsund að meðaltali á hvern vaxtabótaþega og hafa hækkað um 7,3% milli ára en þeim er skipt á milli hjóna og sambýlisfólks. Vaxtabætur hækkuðu um 6% frá fyrra ári og viðmiðunarmörk þar sem bætur byrja að skerðast vegna nettóeignar hækkuðu um 47%.

11 milljarðar til skuldajöfnunar

Hinn 1. ágúst n.k. koma til útborgunar úr ríkissjóði til framteljenda 11,3 milljarðar króna eftir skuldajöfnun á móti ofgreiddum sköttum. Vaxtabætur eru stærsti hluti útborgunarinnar en  þær nema 5,5 milljörðum, um 83% af öllum vaxtabótum. Þá koma barnabætur upp á 2,1 milljarð en afgangurinn, 3,7 milljarðar króna, eru ofgreidd staðgreiðsla eða fyrirframgreiddir skattar af tekjum síðasta árs.