Fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2005 gerir ráð fyrir að heildartekjur bæjarsjóðs og stofnana sveitafélagsins verði 1.508 milljónir króna. Þetta er hækkun upp á rúmar 214 milljónir á milli ára, ef miðað er við rauntölur ársins 2003 hjá sveitarfélögunum sem sameinuðust í Fljótsdalshérað. Af heildartekjum eru skatttekjur áætlaðar 820 milljónir króna, eða 54% og framlag úr Jöfnunarsjóði 262 milljónir, eða 17%.
Rekstrargjöld samstæðunnar án fjármagnsliða eru alls 1.400 milljónir króna og fjármagnsliðir eru samtals 130 milljónir.

Fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2005 var samþykkt af bæjarstjórn 15. desember síðastliðinn. Áætlunin einkennist fyrst og fremst af sameiningu þriggja sveitarfélaga á Héraði í nýtt sveitarfélag, Fljótsdalshérað, og þeirri miklu uppbyggingu og fólksfjölgun sem nú á sér stað í sveitarfélaginu. Aukin umsvif og miklar framkvæmdir hafa óhjákvæmilega í för með sér aukin útgjöld í einstökum liðum, en um leið er ánægjulegt að fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir auknum tekjum sveitarfélagsins og munar þar mest um fjölgun íbúa.

Íbúar Fljótsdalshéraðs voru 3.364 í árslok 2004 og fjölgaði þeim um 433 á árinu. Fljótsdalshérað er í dag fjölmennasta sveitarfélag á Austurlandi. Í ár er gert ráð fyrir áframhaldandi fjölgun og að íbúar sveitarfélagsins verði um 3600 í árslok 2005.

Fasteignamat í sveitarfélaginu hækkaði um 20% á síðasta ári, samkvæmt ákvörðun Fasteignamats ríkisins, sem m.a. hefur þau áhrif að verðgildi fasteigna hefur aukist. Í heildina séð hefur hinsvegar engin hækkun orðið á álagningarhlutfalli fasteignagjalda hjá sveitarfélaginu. Aftur á móti er fyrirhuguð lækkun á álagningarhlutfalli fasteignagjalda til fyrirtækja í 1,15%, en leyfileg hámarksálagning er 1,65%. Álagning útsvars er að fullu nýtt eða 13,03%.

Af einstökum málaflokkum fara mest útgjöld til fræðslu- og uppeldismála en þar er gert ráð fyrir útgjöldum upp á tæpar 740 milljónir króna, sem eru tæp 53% af rekstrargjöldum. Til æskulýðs- og íþróttamála er áætlað að fari tæpar 147 milljónir króna, félagsþjónustunnar um 87 milljónir og áætluð útgjöld til menningarmála eru um 41 milljón króna.

Fjárfestingar ársins eru áætlaðar samtals 620 milljónir króna. Stærsta einstaka fjárfestingin er bygging nýs leikskóla við Skógarlönd á Egilsstöðum fyrir 254 milljónir. Nýbygging gatna í sveitarfélaginu er áætlað að kosti tæpar 100 milljónir, en þar koma tekjur af gatnagerðargjöldum á móti. Framkvæmdir við lagningu hitaveitu eru áætlaðar um 70 milljónir króna og vatnsveitu 46 milljónir. Félagsaðstaða eldri borgara er áætlað að kosti um 40 milljónir, viðbygging við Menntaskólann á Egilsstöðum 38 milljónir og framkvæmdir við grunnskóla 34 milljónir króna.
Gert er ráð fyrir að tekin verði ný langtímalán að upphæð 285 milljónir króna til að standa straum af kostnaði við framkvæmdir.

Sameining sveitarfélaganna þriggja, sem nú mynda Fljótsdalshérað, var samþykkt seint á síðasta ári og því lágu rauntölur ekki nægjanlega skýrt fyrir við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2005. Því verður fjárhagsáætlunin endurskoðuð fljótlega á árinu samhliða vinnu við langtímaáætlun bæjarsjóðs og þegar rauntölur ársins 2004 liggja endanlega fyrir.