Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) hefur samið við 66° Norður um framleiðslu vinnufatnaðar starfsmanna til næstu fjögurra ára. Samningurinn var gerður að undangengnu útboði og nær til alls vinnufatnaðar nema eldgalla, eiturefnagalla og búninga kafara liðsins. Verðmæti samningsins nemur um 13 milljónum króna á ári.

Starfsmenn SHS eru 155 talsins og sinna flestir þeirra störfum í útkallsdeild. Þeir nota margvíslegan fatnað við vinnu sína og gilda um það ákveðnar reglur. 66° Norður mun framleiða fyrir þá sjúkraflutningagalla, fatnað fyrir liðsmenn landflokksins, hátíðareinkennisföt, sérstök vinnueinkennisföt yfirmanna og vinnueinkennisföt varðliðs, dagvinnumanna og kvenna í skrifstofustörfum.

Nokkrar breytingar verða gerðar á fatnaði starfsmanna með samningnum við 66° Norður. Þannig verða vinnueinkennisföt varðliðs nú úr eldþolnu efni og fatnaður sjúkraflutningamanna verður fjölbreyttari en áður og tekur meira tillit til aðstæðna sem unnið er við.