*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 7. apríl 2019 10:02

70% skiptastjóra eru karlkyns

Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur segir að gagnrýni vegna kynjahalla eigi ávallt rétt á sér.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Athugun Viðskiptablaðsins á innköllunum í Lögbirtingablaðinu, frá maí í fyrra til dagsins í dag, leiddi í ljós að hlutfall karlkyns skiptastjóra var um 70 prósent á tímabilinu. Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur segir að gagnrýni vegna kynjahalla eigi ávallt rétt á sér og mikilvægt sé að hún komi fram.

Eftir gjaldþrot WOW air í liðinni viku voru Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson skipaðir til að hafa umsjón með skiptunum. Valið á skiptastjórunum var gagnrýnt meðal annars sökum starfa Sveins Andra sem skiptastjóri EK1923 ehf. en fjöldi ágreiningsmála hefur ratað fyrir dóm vegna þeirra skipta, til að mynda vegna ríflegrar þóknunar lögmannsins. Þá var einnig gagnrýnt af Félagi kvenna í lögmennsku að tveir karlar hefðu fengið „rjómabúið“ í stað þess að kynjahlutföll væru jöfn. Þá hefur einnig verið gagnrýnt að gagnsæi skorti við skipan skiptastjóra.

„Lögmenn senda inn beiðnir um að fá þrotabúum úthlutað. Þeir fara á lista hér. Þessi listi rúllar síðan í réttri röð,“ segir í svari Símons Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, við fyrirspurn blaðsins. Á listanum nú séu 217 karlar og 72 konur og fái hver lögmaður um eitt bú á ári. Hann bætir við að gagnrýni vegna kynjahlutfalla eigi ávallt rétt á sér.

„Frávikin frá þessum úthlutunnarreglum koma til þegar allra stærstu búum er úthlutað. Þá er leitað til lögmanna sem mikla reynslu hafa af skiptum á viðamiklum og flóknum búum. Þeir þurfa líka hafa í kringum sig starfsemi sem ræður við þetta viðamkla starf,“ segir Símon. Kerfið hafi almennt reynst vel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: WOW air gjaldþot