72% aðildarfyrirtækjum Samtaka Atvinnulífsins (SA) segjast hafa ráðist í hagræðingaraðgerðir á þessu ári eða hyggjast gera það. Þetta kemur fram á vef SA, þar sem greint er frá niðurstöðum nýrrar könnunar á rekstrarhorfum fyrirtækja.

Aðrar niðurstöður voru m.a. að tæpur helmingur fyrirtækja hefur haldið að sér höndum í ráðningum frá áramótum og hyggst halda óbreyttum starfsmannafjölda til áramóta. Þriðjungur fyrirtækja hefur fækkað starfsmönnum á árinu eða hyggst gera það.

„Fyrirtækin í könnuninni endurspegla sjávarútveg, iðnað, byggingarstarfsemi, veitur, verslun og samgöngur, hótel og veitingahús, fjármála- og tryggingafyrirtæki. Í þessum atvinnugreinum störfuðu 92.500 manns á síðasta ári og námu launagreiðslur til þeirra rúmlega 470 milljörðum króna. Hjá þeim fyrirtækjum í könnuninni sem þegar hafa fjölgað starfsmönnum eða áforma það nemur fjölgunin 4% af starfsmannafjölda en þegar framkvæmd eða áformuð fækkun nemur 6,7%. Nettófækkun starfsmanna á árinu er því 2,7%. Þessi hlutfallstala, 2,7%, svarar til þess að störfum muni fækka um tæplega 2.500 í þessum atvinnugreinum á árinu,“ segir á vef SA.

Könnunin var send til 1699 fyrirtækja á landinu og var svarhlutfall 34,8%. 81% svarenda er með færri en 50 starfsmenn í vinnu.