Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa 789 fyrirtæki farið í þrot en í fyrra fóru samtals 1122 fyrirtæki í þrot. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar af fóru 128 félög í þrot í síðasta mánuði miðað við 172 í sama mánuði í fyrra og 57 árið 2010. Gjaldþrot gisti- og veitingastaða eru fleiri í ár en á árunum 2008 til 2010.

Frá hruni, árið 2008, er því heildartala gjaldþrota félaga hátt í 3800. Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir þessar tölur lýsa því hvað fólk hér á landi hefur gengið gegnum á síðustu árum. Mikið hafi reynt á efnahagsreikning fyrirtækja og heimila. Þetta sé nokkuð sem megi sjá áfram þó svo batamerki séu komin fram í hagkerfinu.