„Áhugi fyrirtækja á að nýta sér tölvuský fer stöðugt vaxandi. Flest fyrirtæki og einstaklingar nota skýþjónustu, oft án þess að gera sér grein fyrir að um ský sé að ræða,“ segir Helgi Björgvinsson, lausnaráðgjafi hjá Nýherja. Skýjaþjónusta sem þessi eru netpóstþjónustan Gmail frá Google og samfélagsvefurinn Facebook.

Helgi verður með erindi um málið á 20 ára afmælisráðstefnu Nýherja á fimmtudag. Erindið nefnist Tölvuský - hámörkun ávinnings, lágmörkun áhættu.

Haft er eftir Helga í tilkynningu að tölvuskýþjónusta sé einnig notað af viðskiptalífinu með ýmsum hætti, hvort sem um er að ræða CRM kerfi, póst eða bókhald.

„Um 79% smærri og meðalstórra fyrirtækja hyggjast nýta sér tölvuskýþjónustu árið 2014, að því er fram kemur í könnun sem var framkvæmd á vegum Microsoft. Slíkur vöxtur er meðal annars drifinn áfram af þeim ávinningi sem fyrirtæki sjá í lægri fjárfestingum og auknum sveigjanleika. Fyrirtæki verða hins vegar að fara rétta leið; vita hvað ber að varast og hvernig best sé að njóta þess ávinnings sem tölvuský geta haft í för með sér,“ segir Helgi.

Ráðstefnan fer fram á Hilton Reykjavik Nordica frá klukkan 13-17 fimmtudaginn 3. maí. Fyrirlesarar koma meðal annars frá IBM, Gartner og SAP.