Í nýrri reglubundinni könnun meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu, sem framkvæmd var um síðustu mánaðamót, varð niðurstaðan sú að fjórir af hverjum fimm stjórnendum töldu aðstæður slæmar, 2% að þær væru góðar en 18% hvorki góðar né slæmar. Þetta kemur fram í frétt á vef SA .

Niðurstaðan sýni að fleiri stjórnendur telji að eftir sex mánuði verði aðstæður betri en að þær verði verri. 51% stjórnenda telja að aðstæður verði betri, 25% að þær verði verri en 24% að þær verði óbreyttar. Skortur á starfsfólki hafi verið takmarkaður á árinu 2020. 8% fyrirtækjanna telji sig búa við skort og er hann mestur í byggingarstarfsemi (hjá 13% fyrirtækjanna) en minnstur í sjávarútvegi (enginn skortur) og flutningum og ferðaþjónustu. Skortur á starfsfólki sé því álíka lítill og árið 2010 í kjölfar fjármálakreppunnar.

Sta rfsmönnum fækki um 200 næsta hálfa árið

Þrátt fyrir að meirihluti stjórnenda búist við betri aðstæðum eftir sex mánuði skili það sér ekki í áformum um fjölgun starfsfólks. „28 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 20% fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna en 21% við fækkun á næstu sex mánuðum,“ segir í frétt SA.

Ætla megi að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fækki um 0,2% á næstu sex mánuðum. „Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um 200 á næstu sex mánuðum frá desemberbyrjun. Fækkun er 1.600 hjá þeim fyrirtækjum sem sjá fram á fækkun starfsfólks en fjölgun 1.400 hjá þeim sem sjá fram á fjölgun,“ er útskýrt í frétt SA.

Stjórnendur í ferðaþjónustu og flutningum sjái fram á mesta fjölgun starfsfólks en stjórnendur í  byggingarstarfsemi, iðnaði og verslun sjái fram á fækkun.

Verðbólguvæntingar rétt yfir markmiði

Jafnframt segir að verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs séu nú 3%, líkt og í síðustu tveimur könnunum, eftir að hafa verið við verðbólgumarkmið Seðlabankans á síðari hluta árisins 2019 og í byrjun þessa árs. Hækkun verðbólguvæntinga endurspegli fyrst og fremst lækkun gengis krónunnar á árinu. Verðbólguvæntingar til tveggja ára séu einnig 3%. Eftir 5 ár búist stjórnendur við að verðbólgan verði við 2,5% markmið Seðlabankans.

Loks segir að stjórnendur búist við að innlend eftirspurn muni aukast á næstu 6 mánuðum. „Rúmlega helmingur þeirra býst við að hún standi í stað, en 30% að hún aukist og 15% að hún minnki. Horfur virðast enn bjartari á erlendum mörkuðum þar 36% stjórnenda býst við aukinni eftirspurn þar en um 18% við samdrætti.“