Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,82% og er 5.490 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvaktinni. Veltan nemur um 20 milljörðum króna.

Markaðurinn opnaði með krafti og tveimur mínútum eftir opnun var búið að tilkynna um viðskipti fyrir um 18 milljarða króna.

Þar ber hæst að nefna 8,9 milljarða viðskipti með Kaupþing banka, sérfræðingar segja að um sé að ræða framvirkan samning á genginu 892,87 en gengi bréfa bankans á markaði er 725 krónur á hlut, við hádegi.

Einnig var tilkynnt um 3,3 milljarða viðskipti með bréf Glitnis, tveggja milljarða viðskipti með bréf Mosaic Fashions og 1,6 milljarða viðskipti með bréf Landsbankans. Allt klukkan 10:02. Ekki hefur borist flöggun um viðskiptin til Kauphallarinnar.

FL Group hefur hækkað um 3,11%, Landsbankinn hefur hækkað um 2,75%, Kaupþing banki hefur hækkað um 1,12%, Bakkavör Group hefur hækkað um 0,39% og Avion Group hefur hækkað um 0,31%.

Dagsbrún hefur lækkað um 3,78% en félagið birti uppgjör sitt í gær eftir lokun markaða sem var langt undir væntingum greiningardeildar Glitnis og Össur hefur lækkað um 0,44%.

Krónan hefur styrkst um 0,77% og er 122 stig við hádegi.