Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,64% og er 5.966 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvaktinni, en við lok markaðar í gær hafði úrvalsvísitalan hækkaði tólf viðskiptadaga í röð. Veltan nemur 3.317 milljónum króna.

Sérfræðingar áttu von á að markaðurinn tæki að lækka, eftir að hafa átt góðan sprett, enda er eðli hlutabréfamarkaða að fara bæði upp og niður. Sér í lagi því fjárfestar sjá sér leik á borði og innleysa töluverðan hagnað á skömmum tíma en nokkur félög hafa hækkað um allt að 20% á síðustu fjórum vikum. Má nefna að Landsbankinn hefur hækkað um 20,2%, Glitnir um 19,39%, Össur um 19,16% og Alfesca 18,5%.

Rökin sem sérfræðingar nefna fyrir því að markaðurinn muni ekki lækka mikið, eftir vænar hækkanir, á næstunni er að verðmöt greiningardeildanna eru enn, mörg hver, yfir markaðsvirði.

Atlantic Petroleum hefur hækkað um 0,71% í dag, Alfesca hefur hækkað um 0,64% og Actavis Group um 0,3%.

Flaga Group hefur lækkað um 3,13%, FL Group hefur lækkað um 2,19%, Landsbankinn hefur lækkað um 1,61%, Marel hefur lækkað um 1,27% og Össur um 1,16%.

Gengi krónu hefur styrkst um 0,61% og er 123,1 stig við hádegi.