Danska dagblaðið Ekstra Bladet hefur beðið Kaupþing banka afsökunar vegna greinaskrifa um starfsemi bankans sem birtust haustið 2006. Ekstra Bladet mun einnig greiða umtalsverðar skaðabætur, 100 þúsund bresk pund eða tæplega 13,2 milljónir króna, borga lögfræðikostnað sinn að fullu og lögfræðikostnað Kaupþings að miklu leyti. Þá hefur blaðið samþykkt að birta greinarnar aldrei aftur á netinu. Einnig mun blaðið láta afsökunarbeiðni standa á heimasíðu sinni í einn mánuð.

„Við erum mjög sáttir við þessa niðurstöðu og fengum afsökunarbeiðni þá sem við vildum fá. Umfjöllun blaðsins var mjög óábyrg, ásakanirnar með öllu ósannar og til mikils skaða, bæði fyrir bankann og stjórnarformanninn," segir Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs bankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .