Rekstrarkostnaður Ríkisútvarpsins hefur verið að jafnaði 5,4 milljarðar á ári frá stofnun RÚV ohf. 2007 á föstu verðlagi. Er þetta meðal þess sem fram kemur í skýrslu nefndar um starfsemi og rekstur RÚV, en niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á fundi í dag.

Á síðasta rekstrarári var heildarkostnaður RÚV 5,3 milljarðar króna. Að óbreyttu stefnir í hækkun kostnaðar á næsta ári, að því er segir í skýrslunni. Þar segir að áætlanir RÚV, sem unnið er eftir, geri ráð fyrir hærra útvarpsgjaldi en sé í fjárlagafrumvarpi, LSR lán hverfi úr efnahag og sölu byggingaréttar. Gangi þessar forsendur ekki allar eftir sé reksturinn hins vegar ósjálfbær.

Taprekstur var á 4 af þeim 8 árum sem liðin eru frá stofnun RÚV ohf. Tap umfram hagnað á tímabilinu er samkvæmt skýrslunni 813 milljónir króna.

Árið 2013 var 4 milljarða króna skuldbinding lögð á RÚV með 15 ára samningi við Vodafoneum stafrænt dreifikerfi með takmarkaða möguleika, eins og það er orðað í skýrslunni, en þar segir jafnframt að fyrir sömu fjárhæð hefði verið hægt að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins.

Eigið fé RÚV var ákvarðað 15% við stofnun félagsins 2007. Frá þeim tíma hefur það lækkað vegna taprekstrar og aukinnar skuldsetningar og er nú 5,9%. Við sölu byggingaréttar og lækkunar skulda í kjölfarið má reikna með að eiginfjárhlutfallið hækki í um 16%.

Vaxtaberandi skuldir hafa aukist

Við stofnun RÚV ohf. voru heildarskuldir tæplega 5 milljarðar króna. Allar götur síðan hafa stjórnir og stjórnendur RÚV bent á að skuldsetningin væri of mikil, en skuldir hafa haldið áfram að vaxa síðustu ár. Í skýrslunni segir að þann 31. ágúst hafi heildarskuldir RÚV verið um 6,6 milljarðar króna, en þar af hafi vaxtaberandi skuldir verið um fimm milljarðar. Að auki sé innbyggð verðtryggð vaxtaberandi skuld í Vodafone samningnum upp á 570 milljónir króna og því séu vaxtaberandi skuldir fyrirtækisins alls um 5,6 milljarðar króna. Salan á byggingarrétti á lóð RÚV mun leiða til lækkunar skulda um a.m.k. 1,5 milljarð króna.

Hvað varðar rekstur RÚV segir í skýrslunni að mikil hagræðing hafi átt sér stað hjá RÚV á rekstrarárinu 2008-9. Rekstrarkostnaður hafi lækkað á milli áranna 2007-8 og 2008-9 um 900 milljónir króna miðað við fast verðlag. Hluti þeirrar hagræðingar hafi verið tímabundin lækkun launa, sem gekk til baka næstu ár. Rekstrarkostnaður RÚV hefur verið að jafnaði 5.456 milljónir króna frá stofnun RÚV ohf. 2007 á föstu verðlagi. Nýjasta stjórnendauppgjör sýnir lækkun kostnaðar um 4,7% á milli rekstraráranna 2013-14 og 2014-15. Að óbreyttu stefnir í hækkun kostnaðar á næsta ári, að mati skýrsluhöfunda.