Aðalsteinn Jónsson, útgerðarmaður á Eskifirði, lést á fjórðungssjúkrahúsi Neskaupstaðar í morgun.

Aðalsteinn, sem gjarnan var kallaður Alli ríki fæddist 30. janúar 1922 og var því áttatíu og sex ára að aldri. Hann bjó alla tíð á Eskifirði.

Aðalsteinn var um áratuga skeið einn af forystumönnum í íslenskum sjávarútvegi og var forstjóri Eskju, sem áður hét Hraðfrystihús Eskifjarðar, frá 1960 til 2001 eða í alls fjörutíu og eitt ár.

„Forstjóraferill Aðalsteins einkenndist af áræðni og eldhug frumkvöðuls sem byggði upp næstum gjaldþrota fyrirtæki í eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Þessi ár voru mestu uppgangsár í sögu Eskifjarðar og leiddi Eskja hf. undir stjórn Aðalsteins þá uppbyggingu enda var félagið langstærsti atvinnurekandi bæjarins á þeim tíma,“ segir á vef Eskju.

Hann gengdi fjölmörgum trúnaðarstörfum, var sæmdur riddara- og stórriddarakrossi íslensku Fálkaorðunnar og var heiðursborgari á Eskifirði.