Actavis hefur samið við lyfjafyrirtækið Pfizer um kaup á lyfjaverksmiðju sem sérhæfð er í framleiðslu krabbameinslyfja. Verksmiðjan er staðsett í bænum Nerviano, um 30 km frá Mílanó á Ítalíu. Verksmiðjusvæðið er um 300,000 fermetrar og fastir starfsmenn um 340 talsins.   Að auki hefur Actavis samið til nokkurra ára um framleiðslu á krabbameinslyfjum fyrir Pfizer segir í tilkynningu.

Það var ítalska lyfjafyrirtækið Farmitalia sem byggði lyfjaverksmiðjuna árið 1965. Hún hefur hlotið samþykki bandarísku Matvæla- og lyfjastofnunarinnar (FDA), Evrópusambandsins, og japanskra lyfjayfirvalda. Í verksmiðjunni er framleiddur fjöldi lyfja, sem seld eru til um 70 landa.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis segir í tilkynningu: "Þessi kaup gera okkur kleift að halda áfram að auka framboðið á krabbameinslyfjum frá Actavis. Þetta er afar háþróuð verksmiðja, með sérþjálfuðu starfsfólki, sem hefur framleitt hágæðalyf árum saman. Við höfum sagt það fyrr að Actavis vex áfram og dafnar sem einkafyrirtæki, og kaupin á þessari verksmiðju eru til marks um það."   Actavis hyggst í framtíðinni þróa ný lyf til framleiðslu í Nerviano, og flytja þangað framleiðslu á sumum eldri lyfjum. Mikið samstarf verður milli Nerviano og Búkarest, þar sem Actavis þróar og framleiðir krabbameinslyf.   Gert er ráð fyrir að endanlega verði gengið frá kaupunum í lok mánaðarins, en þau eru með fyrirvara um samþykki ítalskra samkeppnisyfirvalda.   Lyfjaverksmiðjur Actavis eru þar með orðnar 21, í 14 löndum; Ítalíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Möltu, Tyrklandi, Búlgaríu, Serbíu, Rússlandi, Rúmeníu, Kína, Indlandi, Indónesíu, Noregi og á Íslandi.