Actavis hefur undirritað samning um kaup á pólska lyfjafyrirtækinu Biovena, 40 manna fyrirtæki með höfuðstöðvar í Varsjá. Biovena, sem var stofnað árið 2000, hefur aðallega lagt áherslu á sölu og markaðssetningu á samheitalyfjum í Póllandi.

Biovena einbeitir sér einkum að sölu lyfja við þvagfæra-, geð- og taugasjúkdómum. Pólska fyrirtækið hefur yfir að ráða góðu úrvali lyfja og hefur tryggt sér markaðsleyfi fyrir átta lyf og er með átta ný lyf í skráningu sem búist er við að verði sett á markað á næsta ári.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, segir að kaupin séu í samræmi við stefnu félagsins um uppbyggingu þess í Mið-Evrópu. ?Með kaupunum erum við komin með beinan aðgang að pólska markaðnum. Við getum í framhaldi skráð og selt okkar eigin lyf þar en í því sjáum við ákveðna samlegð,? segir Róbert Wessman í tilkynningu frá félaginu.

Kaupverð Actavis á Biovena er ekki gefið upp né aðrar fjárhagsupplýsingar varðandi kaupin. Ekki er gert ráð fyrir að þau hafi veruleg áhrif á afkomu Actavis.

Actavis er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu hágæða samheitalyfja. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar á Íslandi, starfar í yfir 25 löndum í fimm heimsálfum. Starfsmenn eru um sjö þúsund talsins, þar af 460 á Íslandi.