Actavis hóf starfsemi á Írlandi í vikunni og er gert fyrir að markaðssetja meira en 120 lyf þar í landi á næstu fimm árum. Starfsmenn Actavis á Írlandi verða um 25, auk þeirra 11 sem þar eru fyrir á vegum móðurfélagsins, Actavis Group segir í tilkynningu.

"Það eru mikil tækifæri á Írlandsmarkaði fyrir stórfyrirtæki eins og Actavis, sem getur boðið sjúkrahúsum og lyfsölum góða þjónustu og mikið vöruúrval. Starfsfólk Actavis á Írlandi hefur mikla þekkingu á lyfjamarkaðinum hérna og fær góðan stuðning frá samstarfsfólkinu í öðrum löndum. Við stefnum að því að vaxa hratt á næstu fimm árum og það er ljóst að það verður hægt að spara verulegar fjárhæðir í írska heilbrigðiskerfinu með meiri notkun samheitalyfja frá Actavis," segir Tony Hynds, framkvæmdastjóri Actavis á Írlandi í tilkynningu.   Krabbameinslyfið Gemcitabine frá Actavis kom á markað í Írlandi á mánudaginn, daginn sem einkaleyfi frumlyfsins rann út. Lyfið fer á markað í sjö öðrum löndum í Vestur-Evrópu í mars, þar á meðal í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi.