Actavis hefur markaðssett þrjú ný lyf í Tyrklandi, sem öll verða seld undir eigin merkjum, segir í fréttatilkynningu Actvais.

Lyfin Xetanor og Blockace Plus eru fyrst á markað þar í landi. Actavis segir markaðssetningu lyfjanna sé góð viðbót við lyfjaúrval félagsins í Tyrklandi en Actavis hefur um 70 samheitalyf á markaðnum og er í hópi fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækjanna þar í landi.

Tyrkland er í dag einn af fjórum stærstu mörkuðum samstæðunnar og nemur sala félagsins þar um 8% af heildarsölu.

Lyfin eru þessi: Þunglyndislyfið Xetanor (Paroxetine),sem er fyrsta samheitalyf frumlyfjanna Paxil® (GSK) og Seroxat® (Novartis) sem fáanlegt er í Tyrklandi, blóðþrýstingslyfið Blockace / Blockace Plus (Ramipril), er samheitalyf frumlyfjanna Delix® og Delix® Plus, sem framleidd eru af Aventis Pharma og ofnæmislyfið Vivafeks (Fexofenadine) er samheitalyf frumlyfsins Telfast, frá Aventis Pharma.