Actavis hefur hafið sölu á sínu fyrsta lyfi við sykursýki, Glimepiride, á helstu mörkuðum í Evrópu og er meðal þeirra fyrstu á markað með lyfið eftir að einkaleyfi þess rann út, fyrstu vikuna í desember. Í tilkynningu félagsins kemur fram að Actavis mun markaðssetja lyfið undir eigin merkjum í fimm löndum, Danmörku, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, fyrst um sinn auk þess sem Medis, dótturfélag Actavis, selur lyfið til annarra lyfjafyrirtækja í átta löndum.

Glimepiride er blóðsykurslækkandi lyf í flokki meltingarfæra- og efnaskiptalyfja og er framleitt í fjórum mismunandi styrkleikum í töfluformi, 1 mg, 2 mg, 3 mg og 4 mg, í sjö mismunandi stærðum pakkninga. Lyfið er notað við insúlínóháðri sykursýki sem er algengasta tegund sykursýki og stafar af skertu insúlínnæmi líkamans.

Þróunarverksmiðja Actavis á Möltu hefur unnið að þróun lyfsins síðustu ár og framleiðsla lyfsins á Möltu hófst nú í haust.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri Sölu til þriðja aðila hjá Actavis, segir að hér sé um tímamót að ræða hjá fyrirtækinu. ?Glimepiride er fyrsta lyfið sem er bæði þróað og framleitt í verksmiðju okkar á Möltu. Jafnframt er Actavis með þessu að feta sig inn á nýtt svið en Glimepiride er fyrsta lyfið við sykursýki sem fyrirtækið þróar,? segir Guðbjörg Edda.

Jafnframt er Actavis um þessar mundir að setja á markað Benazepril-töflur í Þýskalandi í gegnum dótturfyrirtæki sitt Medis. Benazepril er blóðþrýstingslyf sem tilheyrir flokki ACE-hemla, flokki lyfja sem Actavis hefur lagt mikla áherslu á, lyf eins og Ramipril, Lisinopril og Enalapril. Benazepril Hydrochlorothiazide-blandan var sett á markað þegar einkaleyfi lyfsins rann út í lok júní síðastliðins.