Þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas gerir nú ráð fyrir betri söluafkomu á þessu ári eftir að lausn náðist á deilu leikmanna og eigenda NBA deildarinnar í Bandaríkjunum.

Eins og áður hefur verið fjallað um hefur ekkert verið spilað í NBA deildinni þennan veturinn en tímabilið mun núna hefjast á jóladag.

Eins og gefur að skilja hafa íþróttavöruframleiðendur haft nokkrar áhyggjur málinu. Það að tímabilið byrji nú á jóladag eykur hins vegar vonir þeirra til aukinnar sölu á körfuboltavörum fyrir jólin.

Greiningaraðilar í Þýskalandi hafa spáð því að verkfall leikmanna í NBA deildinni muni draga úr tekjum Adidas. Herbert Hainer, forstjóri Adidas, segir þó í samtali við Reuters fréttastofuna að sala á körfuboltavörum hafi aukist um 21% á milli ára fyrstu níu mánuði ársins. Hins vegar er mesta salan á körfuboltavörum iðulega á fjórða ársfjórðungi, þ.e. eftir að keppnistímabilið hefst í NBA deildinni.