Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri Smitten, segir útgáfu appsins í Danmörku hafa gengið vel þessa fyrstu daga, en appið var gefið út þar í landi á Laugardaginn. Hann segir stærstu áskorunina felast í því að upplifun notenda af appinu sé bundin við aðra notendur, það geti því það verið áskorun að fá notendur inn fyrst um sinn.

„Það hafa nokkur þúsund manns sótt appið í Danmörku á þessum fyrstu dögum, þannig að þetta fer vel af stað. Við höfum verið að styðjast mikið við þessa týpísku áhrifavaldamarkaðssetningu, þar sem við höfum fengið nokkra af þekktari áhrifavöldum Danmerkur til þess að fjalla um appið. Það hjálpar okkur að fá fyrstu nokkur hundruð eða þúsund notendurna strax inn, en síðan leggjum við meiri áherslu á svokallaðan „product-led" vöxt, sem gengur út á það varan sé það góð að notendur vilji deila henni áfram með vinum og vinkonum. Við erum til dæmis með innbyggt kerfi þar sem notendur fá premium fítusa ef þeir bjóða vini eða vinkonu í appið, en um 25% af öllum notendum sem ná í appið verið að koma inn í gegnum það," segir Davíð.

Smitten er enskt orð yfir að vera skotinn í einhverjum og þykir sem slíkt hnyttið og grípandi. Orðið er einnig að finna í dönsku en hefur þar nokkuð ólíka merkingu sem gæti orðið tvíeggja sverð í markaðssetningu þar í landi.

„Þetta er eiginlega alveg hræðilegt nafn fyrir danskan markað," segir Davíð hlæjandi og bætir við: „Þetta er allavega svolítið óþægilegt því Smitten þýðir þar að vera smitaður eða sýktur, en við sjáum samt bæði kosti og galla við þetta. Þetta gæti gefið okkur aukið umtal og ef við náum að halda umræðunni léttri og skemmtilegri gæti þetta gefið okkur byr undir báða vængi, en það verður spennandi að sjá hvernig umræðan þróast. Við tókum þá ákvörðun að frekar en að reyna að verja nafnið með því að það sé sniðugt annars staðar, að slá þessu upp í að við séum komin til Danmerkur til þess að smita alla, nema bara af ást og gleði en ekki veirusýkingum."

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ítarleg umfjöllun um nýjar reglur Seðlabankans um hámarksgreiðslubyrði fasteignalána.
  • Fjallað um afkomu fasteignafélaga Valsmanna.
  • Þingmenn munu þurfa að feta nýjar lendur í stjórnskipuninni sökum vankanta á kosningunum.
  • Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um áhrif opinberra fyrirtækja á samkeppni reifuð.
  • Þrjár mæðgur opnuðu básaleigu um notaðar vörur á Laugavegi þar sem endurnýting er alltumlykjandi.
  • Andri Már Rúnarsson, nýr starfsmaður Sjóvá, er forfallinn aðdáandi Formúlu 1.
  • Týr og Hrafnarnir eru á sínum stað og Óðinn fjalla um hvar vinstriflokkarnir fóru útaf sporinu í kosningabaráttunni.
  • Sérblaðið Orka og iðnaður fylgir Viðskiptablaðinu.