*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 5. nóvember 2018 13:59

Ætlaði að fá tífalt meira fyrir Wow

Stofnandi Wow air fær 1 til 4 milljarða fyrir það en í september sagði hann félagið 44 milljarða króna virði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen forstjóri Wow air, getur eignast frá 94,3 milljónum hluta upp í allt að 345,7 milljónir hluta í Icelandair við kaupin á Wow air sem Viðskiptablaðið var fyrst til að segja frá í morgun, sem miðað við núverandi gengi geta verið frá 1 upp í 4 milljarða króna virði.

Eins og fram kom í fréttatilkynningu Icelandair Group fá eigendur Wow air tæplega 94,3 milljónir hluta í Icelandair, eða sem samsvarar 1,8% hlutafjár í Icelandair, við breytingu á víkjandi láni til Wow air í hlutafé.

En í fjárfestakynningu Pareto fyrir skuldabréfaútboð Wow air, sem birt var í ágúst, kom fram að víkjandi lán til Wow air hefðu numið numið 5,9 milljónum Bandaríkjadala þann 30. júní síðastliðinn, sem samsvarar um 720 milljónum króna miðað við núverandi gengi krónunnar.

Til viðbótar geta eigendur Wow air svo fengið frá 0 upp í 4,8% hlutafjár eða sem samsvarar allt að 251,4 milljónum bréfa, allt eftir niðurstöðu áreiðanleikakönnununar sem gert verður á næstu vikum. Í heildina getur Skúli Mogensen eigandi Wow því fengið allt að 345,7 milljónir hluta í Icelandair.

Skúli fær 1 til 4 milljarða

Hann getur því fengið frá 1.065 milljónum króna upp í 3,9 milljarða króna fyrir Wow air miðað við gengi bréfa Icelandair nú, sem þegar þetta er skrifað er 11,30 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur gengi bréfanna hækkað úr því að vera 8 krónur á hlut þegar tilkynnt var um viðskiptin upp í allt að helmingshækkun eða 12 krónur á bréf.

Þó er ljóst er að kaupverðið á Wow Air er nokkuð frá því verðmati sem Skúli gaf upp í viðtali við Financial Times í september sem Viðskiptablaðið greindi frá.

Þar sagði Skúli að stefnt væri að selja innan við helmingshlut í Wow air í hlutafjárútboði á næstu 18 mánaðum fyrir 200-300 milljónir dollara, sem þá voru 22-33 milljarðar króna. Af því má leiða að Skúli taldi Wow air að minnsta kosti um 44 milljarða króna virði í september.

Það verð sem Skúli fær núna fyrir allt félagið er því minna en einn tíundi af því verðmati sem hann gaf fyrir félagið þá, miðað við að hann fái mesta mögulega fjölda bréfa eftir verðmatið.